Tuesday, November 25, 2008

Fight Club

Fight Club er ein af þessum myndum sem ég hef vitað af og vitað að væri góð í mörg ár en hafði aldrei lent í því að sjá hana. Hún er ein af þessum myndum sem ég er búinn að hafa lengi á bak við eyrað sem góðan kost næst þegar ég er staddur á myndbandaleigu. Nýlega sá ég hana svo uppi á hillu í Laugarásvideo og hugsaði með mér: Nú læt ég verða af því. Það má því segja að ég hafi haft frekar talsverðar væntingar til þessarar myndar áður en ég sá hana eftir að hafa fengið að heyra hversu klikkuð hún sé síðustu níu árin eða svo en þrátt fyrir það varð ég alls ekki fyrir vonbrigðum.
Fight Club er mynd frá árinu 1999. Leikstjóri er David Fincher og handritið er eftir Jim Uhls, byggt á bók eftir Chuck Palahniuk. Með aðalhlutverkin fara þeir Edward Norton og Brad Pitt en aðrir leikarar eru t.d. Helena Bonham Carter, Meat Loaf, Zach Grenier og Jared Leto.
Myndin fjallar um sögumanninn (Norton). Það kemur ekki fram í myndinn hvað hann heitir ef maður horfir á aukaefnið er talað um hann sem Jack. Hann vinnur við að meta hvort að öryggisgallar á bílum séu nógu alvarlegir til að afturkalla vöruna. Hann þjáist af svefnleysi og tekur upp á því að mæta á alls kyns stuðningsfundi. T.d. AA-fundi, fundi fyrir krabbameinssjúka og fundi fyrir menn sem hafa misst eistun. Á þessum fundum fær hann útrás fyrir bældar tilfinningar sínar og getur grátið hástöfum án þess að nokkur kyppi sé upp við það. Þessir tilfinningaríku fundir gera honum kleift að sofa á nóttunni. Á einum fundinum kynnist hann Mörlu (Bonham Carter) sem hefur sama áhugamál. Hann getur ekki notið sín á fundunum þegar einhver annar er að þykjast eiga við vandamál að stríða og því skipta þau á milli sín fundunum.
Þá kemur Tyler Durden (Pitt) til sögunnar. Jack hittir hann í flugvél og fær nafnspjaldið hans. Þegar Jack kemur heim hefur íbúðin hans sprungið vegna gasleka og hann hringir í Tyler og fær að gista hjá honum. Tyler kynnir hann fyrir slagsmálum og þeirri nautn sem fellst í því að fá útrás fyrir bælda árásarhneigð. Saman stofna þeir Fight Club sem er félag fyrir menn sem vilja slást bara til þess að slást.
Fyrst um sinn leikur allt í lyndi og Jack nýtur lífsins í þessum nýja félagsskap en brátt fer að síga á ógæfuhliðina. Fyrst er Tyler skyndilega kominn í samband við Mörlu og halda þau vöku fyrir Jack með ýktum samfarastunum en Tyler bannar Jack að tala um hann við hana. Stuttu síðar fer Tyler að koma með meðlimi slagsmálahópsins heim og lætur þá ganga í gegnum alls kyns verkefni og próf. Hægt og bítandi býr hann sér til her skæruliða til að “þjóna hinum æðri tilgangi”. En hver er sá tilgangur og hver er Tyler Durden í raun og veru? Hver er þessi ofursvali maður sem er allt sem Jack vildi óska að hann væri en er ekki. Ég vildi að ég gæti sagt meira en ég vil ekki eiga á hættu að spilla plottinu fyrir þeim sem ekki hafa séð þessa stórgóðu mynd. Þ.e.a.s. ef ég var ekki sá eini sem átti eftir að sjá hana...
Ég var virkilega hrifin af þessar i mynd. Hún er einstaklega frumleg, handritið er frábært (ég elska myndir sem hægt er að kvóta í), leikararnir standa sig með stakri prýði og svo er myndin líka tussuflott. Allt últit myndarinnar skapar mjög flotta stemmingu og klippingin er mjög kúl. Svo er tónlistin líka geðveik. Fight Club er alvöru mynd sem ég hika ekki við að mæla með. Sérstaklega fyrir þá sem hafa gaman af frumlegu plotti og grófu ofbeldi, eins og ég.
Til að gefa smá nasasjón af snilldinni læt ég fylgja með:
THE 8 RULES OF FIGHT CLUB.