Það er líklega best að lýsa Heart of the Factory með orðunum mjög áhugaverð. Þetta er heimildarmynd um starfsfólk flísaverksmiðju í Argentínu sem ganga í gengum mjög erfiða kjara- og réttindabaráttu. Myndin er fyrst og fremst áhugaverð því hún sýnir veruleika sem er manni mjög framandi. Það er í raun ótrúlegt að fylgjast með þessu fólki sem brýst undan oki miskunnarlausra stórfyrirtækja og spilltra stjórnvalda. Þetta fólk þarf bókstaflega að hætta lífi og limum til að fá að framleiða gólfflísar.
Við fylgjumst daglegu amstri í Fasinpat (Fabrica sin patrones) verksmiðjunni sem er rekin af starfsfólkinu sjálfu. Allir fá einhverju ráðið um starfsemina því það er kosið um allar ákvarðanir og allir fá jafnhá laun, allt frá ræstingafólkinu til stjórnendanna sem eru valdir af starfsfélögum sínum. Í Argentínu eru yfir 120 verksmiðjur reknar með þessum hætti.
Myndin er á heildina litið frekar góð og eins og áður sagði er umfjöllunarefnið áhugavert. Helsti ókosturinn við hana er að hún er dálítið ruglingsleg á köflum hvað varðar tímalínu. Það er stokkið á milli atburða í nútið og fortíð heldur oft og með þeim hætti að maður veit stundum ekki hvar maður er staddur í sögunni. Myndin er líka frekar langdregin. Oft á tíðum er lopinn teigður allt of mikið svo maður hefur á tilfinningunni að þessi mynd sem er rúmlega tveir klukkutímar að lengd hefði verið talsvert betri ef hún hefði verið hálftíma styttri.
Ég sé þó ekki eftir að hafa farið á þessa mynd því það er alltaf skemmtilegt og upplýsandi að sjá kvikmyndir sem sýna manni eitthvað sem maður hefur varla leitt hugann að áður, hvað þá séð.
Sunday, August 31, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ágætis færsla. 4 stig.
Það er eitthvað ótrúlega kommúnískt við þetta nafn, Fasinpat...
Post a Comment