Wednesday, October 29, 2008

Reykjavík-Rotterdam

Reykjavík-Rotterdam er nýjasta myndin frá Óskari Jónassyni. Hann leikstýrir og skrifar handritið ásamt Arnaldi Indriðasyni. Með helstu hlutverk fara Baltasar Kormákur, Ingvar E. Sigurðsson og Lilja Nótt Þórarinsdóttir svo einhverjir séu nefndir.
Myndin segir frá Kristófer sem er fyrrverandi smyglari sem hefur snúið við blaðinu og vinnur nú fyrir sér og fjölskyldu sinni sem næturvörður. Þau eiga þó varla fyrir salti í grautinn og þegar Skarphéðinn, gamall félagi Kristófers, býður honum að fara einn túr og smygla spíra frá Rotterdam til Reykjavíkur getur Kristófer varla sagt nei. Við fylgjumst með ferð hans til Hollands og til baka sem er vægast sagt viðburðarík og á meðan sjáum við hvernig Skarphéðinn vinnur að því að koma upp um Kristófer á meðan hann reynir að næla í konuna hans.
Þessi mynd kom mér skemmtilega á óvart og ég held að þetta sé ein besta íslenska mynd sem ég hef séð. Að minnsta kosti besta íslenska spennumyndin. Plottið er frábært, handritið er raunverulegt og sannfærandi og myndin er mjög vel leikin. Svo vel leikin að það er ómögulegt að finna einhvern sem stendur upp úr. Allir skila sínum hlutverkum mjög vel.
Það er spes tilfinning að horfa á spennumynd í bíó og sjá fólk aka um sömu göturnar og maður sjálfur gerði fyrr um daginn. Þetta var eitthvað sem ég fann meira fyrir í þessari mynd en flestum öðrum íslenskum myndum. Þessi sterka nálægð við raunveruleikan sem gerir viðfangsefnið ennþá áhugaverðara. Það er eitt það besta við þessa mynd. Hún er raunveruleg. Þetta er eitthvað sem gæti verið að gerast akkurat núna í næstu götu. Spennandi.
Það var gaman að sjá Baltasar Kormák fyrir framan myndavélina á nýjan leik enda frábær leikari þar á ferð. Uppáhalds persónan mín í þessari mynd var þó skítlegi handrukkarinn sem Jóhannes Haukur Jóhannesson leikur af stakri snilld. Það var líka fyndi að sjá Ólaf sem leikstýrði Herranótt í fyrra í hlutverki gaursins á vídeóleigunni.
Reykjavík-Rotterdam er á heildina litið bara helvíti góð mynd. Hversu margar íslenskar myndir bjóða upp á skotbardaga við sérsveitarmenn og stolið Pollock málverk notað sem yfirbreiðslu? Ekki margar, en þessi gerir það og svo miklu meira.
Það var gaman á fá Óskar Jónasson í heimsókn. Hann er að mínu mati einn af okkar allra bestu á þessu sviði og hefur verið það síðan meistaraverkið Sódóma Reykjavík kom út árið 1992. Það var sérstaklega áhugavert að heyra hann tala um hvernig það var að skjóta í Rotterdam og hvernig allt er miklu beinskiptara þar. Það er líka gaman að vita hversu ótrúlega mikið ferli það er að gera mynd af þessari stærðargráðu. Handritið var skrifað 2001 en myndin kemur ekki út fyrr en 2008. Ótrúlegt hvað það að finna fjármagn fyrir þessum herlegheitum er stór partur af þessu. Hann talaði líka um hvernig það er að vinna í sjónvarpi og hvernig allt gerist miklu hraðra þar. Ég tel mig hafa lært slatta á þessari heimsókn og get því með góðri samvisku sagt að ég sé bara ansi sáttur. Góð mynd, góð heimsókn, þetta er allt saman voða gott.

Tuesday, October 28, 2008

RIFF: Long Weekend

Long Weekend er áströlsk hryllingsmynd frá árinu 1978. Leikstjóri er Colin Eggleston og handritið er eftir Everett De Roche. Með aðalhlutverkin fara John Hargreaves og Briony Behets.
Myndin er eitt helsta dæmið um Ozploitation stefnuna sem kom fram á sjónarsviðið í Ástralíu árið 1971 þegar farið var að framleiða myndir með “R” stimplinum. Ozploitation var stærst á áttunda og níunda áratugnum og einkenndist af “low budget” myndum sem sýndu meira ofbeldi og meiri nekt en áður hafði þekkst. Önnur dæmi um þessa stefnu í kvikmyndagerð eru t.d. Mad Max-myndirnar, Razorback og Crocodile Dundee. Á undanförnum árum hefur ozploitation fengið nokkurs konar uppreisn æru með myndum eins og Undead, Wolf Creek og Rogue. Einnig er von á endurgerð á Long Weekend og er handritið skrifað af De Roche en Eggleston lést árið 2002.
Long Weekend segir frá hjónunum Peter og Marciu sem eru ekki beinlínis náin og í raun á barmi skilnaðar. Þau fara saman í frí á afskekktri strönd og brátt fara undarlegir atburðir að gerast. Hjónin fara illa með náttúruna alla ferðina og á endanum snýst náttúran gegn þeim. Alls kyns dýr, allt frá pokarottum til arnar, ráðast á þau og svo virðist sem skógurinn sé hreinlega að reyna að gera út af við þau. Þeirra helsti kvalari er þó dýr sem virðist vera að ráðast á Peter í sjónum. Þau halda að það sé hákarl og skjóta það. Skrýmslið reynist vera sækýr. Síðan fer hræið að færast nær þegar þau eru ekki að fylgjast með og á endanum missa þau bæði stjórn á sér og allt fer til fjandans.
Eftir því sem sagan líður fær áhorfandinn líka að komast að ýmsu um kalið samband hjónanna, eins til dæmis að Marcia hafi farið í fósureyðingu, en það hefur ekki sérlega mikið gildi fyrir söguna.
Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af þessari mynd. Það er lagt upp með áhugaverða pælingu en útfærslan heppnast ekkert allt of vel. Aðalpersónurnar eru leiðindafólk sem maður hefur enga samúð með og pokarottur eru bara ekkert skerí, hvað þá sækýr. Söguþráðurinn er langdreginn og síðustu tuttugu mínúturnar eru meira og minna án tals. Ég veit ekki með aðra sem sátu í bíósalnum þetta kvöld en ég eyddi stórum parti af myndinni hreinlega í að bíð eftir að aðalpersónurnar dræpust.
Mín niðurstaða er að þessi mynd er ekkert sérstaklega ógnvekjandi, ekkert sérstaklega skemmtileg og ekkert sérstaklega áhugaverð eða m.ö.o. ekkert sérstök. Má ég þá frekar biðja um Mad Max.

Monday, October 27, 2008

RIFF: I've Loved You So Long

Þegar ég fór að heiman þetta kvöld hafði ég í hyggju að sjá myndina Heavy Metal in Baghdad en lenti í því að sá sem var á undan mér í röðinni við miðasöluna keypti síðasta miðann. Ég stóð því eins og illa gerður hlutur fyrir framan stelpuna á bakvið glerið og endaði á því að kaupa miða á fyrsta titilinn sem ég sá. Það var myndin I’ve Loved You So Long eða Il y a longtemps que je t’aime. Í stað þess að fara með félagsskap á heimildamynd um írakska þungarokkara var ég lentur einn á hádramatísku frönsku fjölskyldudrama. Það tók mig dálitla stund að aðlagast breyttum aðstæðum en þegar upp var staðið sá ég ekkert eftir skiptunum.
I’ve Loved You So Long er mynd eftir Philippe Claudel sem er betur þekktur sem rithöfundur og handritshöfundur og er þetta frumraun hans sem leikstjóri. Aðalhlutverkið leikur enska leikkonan Kristen Scott Thomas sem hefur leikið í myndum á borð við: Four Weddings and a Funeral, Mission: Impossible og Gosford Park. Persónan hennar er hálf ensk og hálf frönsk en hún talar reiprennandi frönsku og hefur oftar en einu sinni talað fyrir sjálfa sig í frönskum talsetningum á myndum sínum. Með önnur helstu hlutverk fara Elsa Zylberstein, Serge Hasanavicius og Laurent Grévill svo einhverjir séu nefndir.
Myndin fjallar um Juliette sem hefur verið látin laus úr fangelsi eftir að hafa setið inni í fimmtán ár. Henni er óvænt tekið opnum örmum af yngri systur sinni, Léu, sem tekur hana inn á heimili sitt og undir sinn verndarvæng. Fyrst um sinn er Juliette lokuð og kuldaleg gagnvart heiminum í kringum sig en með hjálp systur sinnar og fjölskyldu hennar og vina opnar hún sig og kemur hægt og bítandi út úr skelinni.
Áhorfandinn fær ekki strax að vita hvers vegna Juliette sat inni en brátt kemur í ljós að hún var dæmd fyrir að myrða ungan son sinn. Rauði þráðurinn í myndinni er því spurningin: af hverju? Hvernig gat þessi kona sem er svo góð við systurdætur sínar myrt barn? Það veldur síðan eðlilega ýmiss konar erfiðleikum í samskiptum fjölskyldumeðlimanna.
Ég var nokkuð hrifinn af þessari mynd. Hún er vel skrifuð, geysilega vel leikin og heldur manni föngnum frá upphafi til enda. Þetta er vissulega dramatísk saga en verður þó aldrei að einhverju grátbólgnu poppkornsdrama. Til þess er handritið of gott. Atburðir sögunnar eru meira að segja oft grátbroslegir og koma þá til ýmsar áhugaverðar aukapersónur eins og mállaus tengdafaðir Léu og hinn undarlegi skilorðsfulltrúi sem Juliette vingast við.
Ég er kannski ekki týpan sem fíla franskt drama í ræmur svona dags daglega en ég var þó, þegar upp var staðið, bara ansi sáttur með að hafa álpast inn á þessa mynd. Það er alltaf gaman að horfa á kvikmynd sem maður veit ekkert um en kemur manni síðan á óvart. I’ve Loved You So Long er fínast mynd og það er óhætt að mæla með henni fyrir þann sem hefur ekkert á móti því að fá kalda gusu af mannlegum tilfinningum í andlitið til að hrista af sér kreppuslenið.