Long Weekend er áströlsk hryllingsmynd frá árinu 1978. Leikstjóri er Colin Eggleston og handritið er eftir Everett De Roche. Með aðalhlutverkin fara John Hargreaves og Briony Behets.
Myndin er eitt helsta dæmið um Ozploitation stefnuna sem kom fram á sjónarsviðið í Ástralíu árið 1971 þegar farið var að framleiða myndir með “R” stimplinum. Ozploitation var stærst á áttunda og níunda áratugnum og einkenndist af “low budget” myndum sem sýndu meira ofbeldi og meiri nekt en áður hafði þekkst. Önnur dæmi um þessa stefnu í kvikmyndagerð eru t.d. Mad Max-myndirnar, Razorback og Crocodile Dundee. Á undanförnum árum hefur ozploitation fengið nokkurs konar uppreisn æru með myndum eins og Undead, Wolf Creek og Rogue. Einnig er von á endurgerð á Long Weekend og er handritið skrifað af De Roche en Eggleston lést árið 2002.
Long Weekend segir frá hjónunum Peter og Marciu sem eru ekki beinlínis náin og í raun á barmi skilnaðar. Þau fara saman í frí á afskekktri strönd og brátt fara undarlegir atburðir að gerast. Hjónin fara illa með náttúruna alla ferðina og á endanum snýst náttúran gegn þeim. Alls kyns dýr, allt frá pokarottum til arnar, ráðast á þau og svo virðist sem skógurinn sé hreinlega að reyna að gera út af við þau. Þeirra helsti kvalari er þó dýr sem virðist vera að ráðast á Peter í sjónum. Þau halda að það sé hákarl og skjóta það. Skrýmslið reynist vera sækýr. Síðan fer hræið að færast nær þegar þau eru ekki að fylgjast með og á endanum missa þau bæði stjórn á sér og allt fer til fjandans.
Eftir því sem sagan líður fær áhorfandinn líka að komast að ýmsu um kalið samband hjónanna, eins til dæmis að Marcia hafi farið í fósureyðingu, en það hefur ekki sérlega mikið gildi fyrir söguna.
Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af þessari mynd. Það er lagt upp með áhugaverða pælingu en útfærslan heppnast ekkert allt of vel. Aðalpersónurnar eru leiðindafólk sem maður hefur enga samúð með og pokarottur eru bara ekkert skerí, hvað þá sækýr. Söguþráðurinn er langdreginn og síðustu tuttugu mínúturnar eru meira og minna án tals. Ég veit ekki með aðra sem sátu í bíósalnum þetta kvöld en ég eyddi stórum parti af myndinni hreinlega í að bíð eftir að aðalpersónurnar dræpust.
Mín niðurstaða er að þessi mynd er ekkert sérstaklega ógnvekjandi, ekkert sérstaklega skemmtileg og ekkert sérstaklega áhugaverð eða m.ö.o. ekkert sérstök. Má ég þá frekar biðja um Mad Max.
Tuesday, October 28, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ágæt færsla. 5 stig.
Post a Comment