Þegar ég ákvað að fara í bíó um daginn til að dreyfa huganum og reyna að gleyma því að ég ætti fyrir höndum daga sem færu meira og minna í að lesa Catúllus og Númarímur (úff), þá datt mér helst í hug að sjá eitthvað fyndið. Eitthvað ógeðslega fyndið. Það útilokaði strax W. og Apaloosa. Oliver Stone er ekki samheiti yfir afþreyingu í minni bók og vestri í leikstjórn Ed Harris með hið ofursvala en ekkert svo hressa tagline: Feelings get you killed......nei ég var bara ekki alveg í stuði. Valið stóða í raun á milli How to Lose Friends and Alienate People og Zack and Miri Make a Porno. Sú fyrrnefnda virtist hinsvegar aðeins vera sýnd í einhverjum kústaskáp bakatil í Álfabakka og á Selfossi svo ég endaði á þeirri síðarnefndu og sá bara ekkert eftir því.
Zack and Miri Make a Porno var frumsýnd þann 28. nóvember síðastliðinn. Leikstjóri er Kevin Smith og hann semur einnig handritið. Með helstu hlutverk fara Seth Rogen, Elizabeth Banks, Jason Mewes og Craig Robinson svo einhverjir séu nefndir.
Sagan segir frá Zack (Rogen) og Miri (Banks) sem eru æskuvinir og meðleigjendur. Þau kunna ekki að fara með peninga og glíma bæði við krónísk blankheit. Það endar með því að þau geta ekki borgað reikningana lengur og það er skrúfað fyrir vatn og rafmagn hjá þeim. Þar sem þau hýrast í kaldri og klakafullri íbúðinni fá þau hugmynd sem á eftir að breyta lífi þeirra. Þau ákveða að leysa fjárhagsvandan með því að taka upp og dreyfa sinni eigin klámmynd. Þau ráða fólk sér til aðstoðar og byrja að taka upp. Það kemur þó á daginn þegar á að fara að skjóta senurnar þeirra á milli að þau bera aðrar og meiri tilfinningar til hvors annars en þau höfðu áður áttað sig á.
Þessi mynd er drullufyndin. Hún er full af ótrúlega góðu stöffi, stóru sem smáu. Sérstaklega eru það þó frábærir lekarar sem gera þessa mynd góða. Til dæmis er Craig Robinson sem leikur vinnufélaga Zacks sem gerist framleiðandi myndarinnar algjör meistari. Klárlega einn fyndnasti maður sem ég hef séð lengi. Hann var líka magnaður í Pineapple Express. Brandon Routh sem hefur lítið sést síðan hann vann leiksigur sem Súperman í hinni ótrúlegu Superman Returns (2006), kemur skemmtilega á óvart með nærveru sinni og Justin Long, sem lék til dæmis í Die Hard 4, fer á kostum sem ástmaður hans. Gerry Bednob er góður í sínu klassíska gamla-Indverja hlutverki en hann er nokkurn veginn sami karakterinn og í 40 Year Old Virgin. Það var líka sérstaklega gaman að sjá Jason Mewes (betur þekktur sem Jay úr Jay and Silent Bob) aftur. Ég ætlaði heldur ekki að þekkja hann. Gerði það í rauninni ekki fyrr en myndin var að verða búin. Seth Rogen er náttúrúlega ekkert annað en snillingur og er virkilega góður í þessari mynd. Elizabeth Banks var líka góð og mér finnst reyndar geðveikt fyndið að nánast á sama tíma og þessi mynd kemur út þar sem hún leikur þessa undarlegu konu sem ætlar að leika í klámmynd til að bjarga sér frá gjaldþroti, kemur út W. eftir Oliver Stone þar sem hún leikur enga aðra en forsetafrá Bandaríkjanna, Lauru Bush. Ég veit, fyndið.
Þetta var bara fín mynd. Mér var samt einhvern veginn alveg sama um söguþráðinn því hann er frekar þunnur og snýst upp í frekar slappt rómantískt-gamanmyndadæmi þegar á líður, en þetta er geðveikt fyndin mynd. Vel leikin, vel skrifuð og að mörgu leyti mjög frumleg. Þetta er að mínu mati það besta sem Kevin Smith hefur sent frá sér í langan, langan tíma (ég er enn að reyna að gleyma Jersey Girl) og það er alveg þess virði að eyða kvöldstund í að horfa á þetta. Jafnvel kvöldstund og 1000 kalli. Gott stöff. Virkilega gott stöff.
EITTHVAÐ TIL AÐ GLEÐJA AUGAÐ.
Thursday, December 4, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Fín færsla. 7 stig.
Post a Comment