Tuesday, September 30, 2008

TOPP 10

Nú er loksins komið að því. Hinn margumtalaði topp 10-listi lítur dagsins ljós. Eftir að hafa setið yfir þessu dálitla stund rann upp fyrir mér að ég gæti ekki með nokkru móti búið til fullkominn lista þar sem það eru allt of margar myndir sem ég elska. Ég ákvað því að búa til einfaldan lista yfir þær myndir sem mér datt í hug og það er listinn sem hér birtist. Hann er kannski ekki alveg fullkominn en hann er nokkuð nálægt því.

10.
Into the Wild
(2007)








Leikstjóri: Sean Penn
Aðalleikarar: Emile Hirsch, William Hurt, Hal Holbrook, Vince Vaughn o.fl.
Ég sá þessa mynd nýlega og ég get með sanni sagt að fáar myndir haf komið mér jafn mikið á óvart. Þetta er einstaklega áhrifarík mynd, vel leikin, frábær myndataka og geðveik tónlist. Ein af bestu myndum síðast árs.

Sýnishorn!

9.
28 days later
(2002)








Leikstjóri: Danny Boyle
Aðalleikarar: Cillian Murphy, Naomie Harris, Christopher Eccleston.
Ég varð að setja eina zombie-mynd á listann. Þetta er flott mynd. Ein af þessum myndum sem ná að gera þetta fráleita zombie konsept trúanlegt. Ég er ekki mikill hryllingsmyndamaður en þessi er awesome.

Sýnishorn!

8.
Resevoir Dogs
(1992)








Leikstjóri: Quentin Tarantino
Aðalleikarar: Harvey Keitel, Tim Roth, Michael Madsen, Steve Buscemi o.fl.
Ég er mikill Tarantino maður og þessi er því ómissandi. Frábær mynd. Það eru fáar sem komast með tærnar þar sem þessi hefur hælana hvað varðar vel skrifuð samtöl. Plottið er líka mjög gott og þetta stjörnulið leikara skemmir ekki fyrir.

Sýnishorn!

7.
The Boondock Saints
(1999)








Leikstjóri: Troy Duffy
Aðalleikarar: Sean Patrick Flanery, Norman Reedus, Willem Dafoe.
Kúl mynd. Írskir harðjaxlar í hæsta gæðaflokki. Þetta er ein mesta strákamynd sem ég veit um enda er ekki eitt einasta alvöru kvenhlutverk í myndinni. Dálítið ýkt á köflum en það er bara betra.

Sýnishorn!

6.
Die Hard
(1988)







Leikstjóri: John McTiernan
Aðalleikarar: Bruce Willis, Bonnie Bedelia, Alan Rickman.
Besta hasarmynd allra tíma. Ég get horft endalaust á þessa mynd án þess að verða leiður á henni. Bruce Willis er ógleymanlegur sem hinn ofurmannlegi John McClane og Alan Rickman stendur fyrir sínu sem gamli góði vondi kallinn. Snilldarmynd.

Sýnishorn!

5.
Lock, Stock and Two Smoking Barrels
(1998)








Leikstjóri: Guy Ritchie
Aðalleikarar: Jason Flemyng, Dexter Fletcher, Jason Statham, Vinnie Jones o.fl.
Bresk smákrimmamynd af bestu gerð. Ofbeldi og töffaraskapur í bland við frábæran húmor og massíft plott. Svo ekki sé minnst á Vinnie Jones sem er auðvitað ekkert annað en meistari.

Sýnishorn!

4.
Fear & Loathing in Las Vegas
(1998)








Leikstjóri: Terry Gilliam
Aðalleikarar: Johnny Depp, Benicio Del Toro, Tobey Maguire, Christina Ricci o.fl.
Monty Python kempan Gilliam fer með okkur á sveitt sýrutripp í eyðimörkinni. Algjör snilld. Súrrealísk rússíbanaferð. Þeir Depp og Del Toro eru mjög sannfærandi og vímuatriðin eru listilega vel útfærð. Áhugaverð og skemmtileg mynd.

Sýnishorn!

3.
Kill Bill I & II
(2003-2004)








Leikstjóri: Quentin Tarantino
Aðalleikarar: Uma Thurman, Lucy Liu, David Carradine, Daryl Hannah o.fl.
Þessi magnaði tvíleikur er auðvitað ekkert annað en konfekt fyrir augu og eyru. Allt lúkkið á myndunum er einstaklega töff og tónlistin er tær snilld. Söguþraðurinn er líka mjög góður. Ég fíla svona ýkt hefndarplott.

Sýnishorn!

2.
Pulp Fiction
(1994)








Leikstjóri: Quentin Tarantino
Aðalleikarar: John Travolta, Samuel L. Jackson, Bruce Willis, Uma Thurman o.fl.
Ekkert annað en meistaraverk. Að mínu mati eitt besta handrit allra tíma, frábær leikur, einstaklega vel skrifuð samtöl og góð tónlist. Þessi mynd hefur allt til að bera sem minn smekkur krefst. Epík.

Sýnishorn!

1.
Sin City
(2005)
Leikstjórar: Frank Miller & Robert Rodriguez
Aðalleikarar: Bruce Willis, Clive Owen, Mickey Rourke, Jessica Alba o.fl.
Þegar ég fer í bíó vil ég ekki sjá heiminn eins og hann er. Ég fer í bíó til að upplifa eitthvað nýtt. Ég vil sjá annan heim en minn eigin og það er einmitt það sem þessi mynd bíður upp á. Það er bara eitt orð sem lýsir þessari mynd vel. Kúl. Virkilega kúl. Þeir sem segja að þessi mynd sé ýkt eða innihaldslaus geta átt sig. Sin City er ofursvöl og ég fíla hana í ræmur.

Sýnishorn!

Myndir sem komust ekki á listann eða ég gleymdi meðan ég var að skrifa hann:
Oldboy, Fargo, Godfather, Scarface, Lord of the Rings, Death Proof, Dawn of the Dead, Hot Fuzz, The Dark Knight, Goodfellas, Desperado, Natural Born Killers, Snatch, Children of Men, Back to the Future, Lady Vengeance o.fl o.fl.

American Psycho

American Psycho er mynd frá árinu 2000. Leikstjóri er Mary Harron en hún skrifar einnig handritið ásamt Bret Easton Ellis en hann skrifaði bókina sem myndin er byggð á. Christian Bale fer með aðalhlutverkið en aðrir leikarar eru t.d. Chloë Sevigny, Reese Witherspoon, Willem Dafoe og Jared Leto svo einhverjir séu nefndir. Mary Harron hefur aðallega leikstýrt sjónvarpsþáttum á borð við Six Feet Under og Big Love á undanförnum árum og ég held að það sé óhætt að segja að American Psycho sé hennar frægasta mynd. Aðrar myndir eftir hana eru t.d. I Shot Andy Warhol og The Notorious Bettie Page.
American Psycho segir frá Patrick Bateman sem er 26 ára aðstoðarframkvæmdastjóri á Wall Street. Á daginn sinnir hann vinnu sinni, stundar líkamsrækt og borðar og skemmtir sér með öðru ungu, ríku fólki. En á nóttunni myrðir hann fólk. Bateman er sálarlaust skrímsli sem hatar heiminn í kringum sig og er rekinn áfram af efnishyggjunni einni saman. Hann verður sífellt geðveikari eftir því sem líður á myndina þar til hann hreinlega missir tökin á veruleikanum.
Þessari mynd er haldið uppi af aðalpersónunni sem Cristian Bale leikur af stakri snilld. Aðrar persónur eru eins og hluti af leikmyndinni þar sem hin eiginlega atburðarás er það sem á sér stað í huga Batemans. Ég hafði mjög gaman af þessari mynd. Hún var að mínu mati góð útfærsla á góðu handriti. Ég mæli eindregið með þessari mynd en þó ekki fyrir viðkvæma enda fékk hún R-stimpilinn í Bandaríkjunum fyrir gróft ofbeldi, kynlíf, eiturlyfjanotkun og málfar. Geri aðrir betur.
Til að gefa tóninn:

Sunday, September 28, 2008

Sveitabrúðkaup

Ég hafði ekkert gífurlega miklar væntingar þegar ég fór að sjá Sveitabrúðkaup. Mér fannst hún ekki hljóma neitt sérstaklega spennandi og þar að auki hafði ég heyrt að hún væri ekkert spes. En þessi mynd kom mér skemmtilega á óvart. Hún státar kannski ekki af bitastæðasta söguþræði sem sést hefur á filmu en það kemur ekki að sök því þessi mynd snýst miklu meira um persónurnar en atburðarásina. Henni er haldið uppi af frábærri frammistöðu leikhópsins sem stóð sig svo vel að ég get í raun ekki í fljótu bragði sagt að neinn karakter hafi verið áhugaverðari eða betur túlkaður en annar. Uppáhalds persónan mín var samt klárlega amman.
Það sem er samt merkilegast við þessa mynd er samt auðvitað hvernig hún er unnin. Margar senur teknar upp í einu án þess að leikararnir viti hvað er að gerast í öðrum senum en þeirra. Öllum persónum gefið leyndarmál sem engin annar mátti vita. Það var til dæmis algjör snilld að enginn vissi að sálfræðingurinn í hópnum var ekki sálfræðingur heldur sagnfræðingur og eftir að maður vissi það þá sá maður hversu mikinn stjörnuleik Víkingur sýnir í þessari mynd. Atburðarásin spunnin á staðnum. T.d. þegar Ólafur Darri hendir Gísla Erni í ána í slagsmálunum. Allt tekið upp á þrjár myndavélar sem áttu einfaldlega að fanga allt sem var að gerast. Það hefur örugglega verið vesen að passa að tökumennirnir yrðu ekki fyrir hver öðrum. Eitt af því sem mér fannst merkilegast var að öll myndin var tekin upp á sjö dögum. Ég vissi ekki að það væri hægt að taka upp kvikmynd í fullri lengd á svo skömmum tíma.
Heimsókn Valdísar var mjög upplýsandi og skemmtileg, enda ekki á hverjum degi sem maður nemur við fótskör einhvers sem hefur unnið BAFTA-verðlaunin og unnið með mönnum á borð við Gus Van Sant og Lars von Trier. Það var gaman að heyra hana tala um samskipti klippara og leikstjóra og það hvernig það er að vinna tveggja tíma mynd úr 600 klukkustundum af efni. Mér fannst ég læra meira í þessum tíma en í tíu íslensku-tímum.
Sveitabrúðkaup er mjög fín mynd en ekkert meira en það. Hún er vel leikin og skemmtilega gerð en er samt ekkert meistaraverk. Þetta er ein af þessum myndum sem er gaman að horfa á en skilja kannski ekki mikið eftir sig.

Wednesday, September 17, 2008

Maraþonmynd

Þegar við komum fyrst saman til að taka upp þessa blessuðu mynd vorum við öll frekar hugmyndasnauð fyrst um sinn og það þurfti því heilmikið brainstorm áður en við gátum hafist handa. Nokkrar misgáfulegar og misframkvæmanlegar hugmyndir litu dagsins ljós áður en við sættumst loksins á eina. Tökurnar fóru fram heima hjá Breka. Það kom ágætlega út enda held ég að það hafi verið myndrænasta íbúðin sem var í boði. Hópurinn vann nokkuð vel saman og við beittum frekar fast mótaðri verkaskiptingu sem gerði það að verkum að allt gekk að mestu leyti snuðrulaust fyrir sig. Breki sá um að taka upp, Anna var á bómunni og ég og Íris gerðum okkar besta til að líta ekki út eins og hálfvitar. Við plönuðum fátt fyrirfram heldur sömdum atburðarásina jafn óðum. Það sem við vildum ná fram var að koma með einhverja áhugaverða fléttu, reyna að snúa aðstæðum sem virðast fullkomlega eðlilegar við fyrstu sýn upp í eitthvað brenglað. Ég veit ekki hversu vel okkur tókst til. Ég var ánægður með sumt en það var margt sem hefði getað verið betra. Endirinn var sennilega helst til snubbóttur og það voru nokkur skot sem heppnuðust ekki alveg nógu vel. T.d. skotið þar sem brauðið skýst upp úr ristinni en það varð eiginlega að engu af einhverjum ástæðum. Á heildina litið var ég þó nokkuð sáttur með útkomuna og tel mig hafa lært eitt og annað á þessu ferli. Til þess er leikurinn gerður, ekki satt?