Tuesday, September 30, 2008

American Psycho

American Psycho er mynd frá árinu 2000. Leikstjóri er Mary Harron en hún skrifar einnig handritið ásamt Bret Easton Ellis en hann skrifaði bókina sem myndin er byggð á. Christian Bale fer með aðalhlutverkið en aðrir leikarar eru t.d. Chloë Sevigny, Reese Witherspoon, Willem Dafoe og Jared Leto svo einhverjir séu nefndir. Mary Harron hefur aðallega leikstýrt sjónvarpsþáttum á borð við Six Feet Under og Big Love á undanförnum árum og ég held að það sé óhætt að segja að American Psycho sé hennar frægasta mynd. Aðrar myndir eftir hana eru t.d. I Shot Andy Warhol og The Notorious Bettie Page.
American Psycho segir frá Patrick Bateman sem er 26 ára aðstoðarframkvæmdastjóri á Wall Street. Á daginn sinnir hann vinnu sinni, stundar líkamsrækt og borðar og skemmtir sér með öðru ungu, ríku fólki. En á nóttunni myrðir hann fólk. Bateman er sálarlaust skrímsli sem hatar heiminn í kringum sig og er rekinn áfram af efnishyggjunni einni saman. Hann verður sífellt geðveikari eftir því sem líður á myndina þar til hann hreinlega missir tökin á veruleikanum.
Þessari mynd er haldið uppi af aðalpersónunni sem Cristian Bale leikur af stakri snilld. Aðrar persónur eru eins og hluti af leikmyndinni þar sem hin eiginlega atburðarás er það sem á sér stað í huga Batemans. Ég hafði mjög gaman af þessari mynd. Hún var að mínu mati góð útfærsla á góðu handriti. Ég mæli eindregið með þessari mynd en þó ekki fyrir viðkvæma enda fékk hún R-stimpilinn í Bandaríkjunum fyrir gróft ofbeldi, kynlíf, eiturlyfjanotkun og málfar. Geri aðrir betur.
Til að gefa tóninn: