Tuesday, January 27, 2009

TOPP 10 - 2008

Þá er komið að því. Hér eru tíu bestu myndir ársins 2008 að mínu mati. Þetta er ekki beint tæmandi listi og ég hef örugglega gleymt einhverju. Ég vona samt að þetta gefi ágætis mynd af minni upplifun á kvikmyndaárinu 2008.

10. Burn After Reading

Cohen-bræður stóðu fyrir sínu og komu með eina góða í september. Þetta er sannarlega stjörnum prýdd mynd eins og flestar myndir þeirra bræðra. Þeir eru í fámennum hópi kvikmyndagerðarmanna sem geta fengið hvern sem er til að leika í myndunum sínum og það er einkenni á myndum þeirra að þær eru rosalega vel castaðar. Burn After Reading er þar engin undantekining. Þetta er reyndar langt frá því að vera besta mynd þeirra bræðra og sérstaklega fannst mér plottið frekar slappt. Hún er hins vegar mjög vel leikin og virkilega fyndin á köflum. Brad Pitt og Frances McDormand fara á kostum sem starfsmenn líkamsræktarstöðvar sem komast yfir geisladisk sem þau halda að innihaldi dýrmætar leyniupplýsingar og hyggjast græða á fundinum. George Clooney er líka góður og Malkovich er samur við sig. Svo er auðvitað alltaf gaman að sjá J. K. Simmons. Ekki Cohen-bræður upp á sitt besta en samt mjög fín mynd sem er virkilega þess virði að sjá.

9. Quantum of Solace

Bond myndin með skrítna nafnið fær sinn sess á þessum lista enda tvímælalaust ein af stærstu myndum síðasta árs. Ég var þó ekkert yfir mig hrifinn því að þótt myndin sé á margan hátt góð þá eru á henni margir vankantar. Söguþráðurinn er ruglingslegur og ég átti satt að segja oft erfitt með að átta mig á hvað var að gerast einfaldlega vegna þess að það var of langt síðan ég sá Casino Royal. Mér fannst vondu kallarnir líka ekkert sérstaklega badass þó að vissulega hafi þeir verið raunverulegri en oft áður. Þrátt fyrir þessa galla og nokkra aðra þá er nú alltaf gaman að Bond og Quantum of Solace er fín hasarmynd. Mér finnst Daniel Craig drullusvalur og hef ekkert út á hann að setja. Þessi er ekki betri en Casino Royal en tekst samt að toppa ansi margar aðrar. Fín mynd.

8. RocknRolla

Húrra, húrra! Meistarinn er mættur aftur. Guy Ritchie virðist loksins hafa hrist af sér slenið sem hefur einkennt hans störf síðan Snatch kom út árið 2000. Ég er búinn að reyna að jafna mig á Swept Away síðustu sjö árin og er viss um að ég er ekki einn um það en ég held að mér hafi loksins tekist að losa mig við óbragðið sem sú skítamynd skildi eftir sig. RocknRolla markar tímamót því hér erum við komin með gamla Ritchie fílinginn en þetta er samt ekki sama formúlan. Frábær samtöl, góður húmor, svalir karakterar (undir hvaða steini hefur Mark Strong falið sig allt mitt líf?) og flottur hasar einkenna þessa ræmu. Leikarahópurinn er magnaður: Wilkinson, Strong, Kebbell, Rodin og auðvitað snillingurinn Gerard Butler. Lúkkið er líka mjög flott og tónlistin er góð. Söguþráðurinn er að vísu ekkert rosalegur og plottið ekkert sérlega djúpt en maður fyrirgefur það (ég meina rússnesku stríðsglæpamennirnir voru ekkert nema snilld). RocknRolla hefur ekkert í Snatch og hvað þá Lock Stock en þetta er sannarlega skref í rétta átt hjá Guy Ritchie. Virkilega skemmtileg mynd.

7. Rambo

Snilld. Þessi mynd er góð. Virkilega góð. Hinn 63 ára gamli Sylvester Stallone leikstýrir, skrifar handritið og leikur titilhlutverkið í þessari frábæru hasarmynd. John Rambo er bara eitthvað að tjilla í Taílandi þegar til hans koma einhverjir málaliðar sem þurfa far til Burma (þar sem allt er að fara til fjandans) til þess að bjarga einhverjum trúboðum. Rambo er tregur til en lætur á endanum til leiðast. Skemmst er frá því að segja að þá upphefst eitthvað svaðalegasta blóðbað síðari ára. Rambo britjar niður vondu gæjana sem eru svo vondir að þeir gætu alveg eins verið orkar úr Lord of the Rings. Sly hefur greinilega engu gleymt. Það eru svo gott sem engir aðrir þekktir leikrar í þessari mynd og hann heldur henni fyllilega á floti. Hasar í hæsta gæðaflokki. Rambo er, sannast sagna, epík.

6. Iron Man

Jon Favreau er líklega miklu betur þekktur sem leikari en leikstjóri og síðustu myndir sem hann leikstýrði voru Zathura: A Space Adventure (2005) og Elf (2003) sem eru kannski ekki í hópi þeirra bestu. Ég sem mikill áhugamaður um ofurhetjumyndir hafði því mínar efasemdir þegar ég heyrði að hann ætti að leikstýra Iron Man. Það kom mér því nokkuð á óvart þegar ég sá þessa mynd að hún er virkilega góð og í raun meðal bestu ofurhetjumynda sem ég hef séð. Robert Downey Jr. er auðvitað eins og fæddur í þetta hlutverk og nær hinum ofurgreinda glaumgosa Tony Stark ótrúlega vel. Jeff Bridges er líka þrælgóður sem Obadiah. Í heildina mjög flott og skemmtileg mynd með fínu handriti, áhugaverðu leikaravali og flottum brellum.

5. Reykjavík-Rotterdam

Tvímælalaust ein af bestu íslensku myndum sem ég hef séð. Óskar Jónasson er auðvitað snillingur og honum hefur tekist það sem margir hafa reynt en engum tekist, að búa til góða íslenska spennumynd. Plottið er auðvitað mjög gott enda Arnaldur Indriðason innanborðs við gerð handritsins. Það var líka gaman að sjá Baltasar Kormák leika aftur, hann er alltaf góður. Það besta við þessa mynd er að hún er mjög raunveruleg. Það ekki venjulega það sem ég sækist eftir í bíó en það er virkilega gaman að sjá raunverulega atburaðarás í íslensku umhverfi. Stór hluti af því er auðvitað leikurinn sem er frábær og laus við alla þá leikhúslegu tilgerð sem oft einkennir leikara í íslenskum myndum. Klárlega besta íslenska mynd ársins.

4. Pineapple Express

Þetta er eitthvað það fyndnasta sem ég hef séð í langan tíma. Leikstjórinn David Gordon Green fer hér út af sporinu en flestar myndir sem hann hefur gert eru dramatískar eins og Snow Angels og Undertow (núna er hann að vinna að handriti fyrir endurgerð á Suspira eftir Dario Argento) en þetta er þrusu grín/hasarmynd sem skilur mann eftir í virkilega góðu skapi.Þetta er líka hans fyrsta mynd þar sem hann skrifar ekki handritið. Það er í höndum þeirra Seth Rogen og Evan Goldberg sem skrifuðu líka Superbad. Seth Rogen og James Franco eru frábærir saman í aðalhlutverkunum og myndina prýðir fjöldi annarra snillinga á borð við Danny McBride, Craig Robinson, Gary Cole og Kevin Corrigan. Það sem kemur manni mest á óvart við þessa mynd er hversu mikil hasarmynd hún er (slagsmálin heima hjá Red er eru vægast sagt awesome) en hún stenst fyllilega samanburð við bestu spennumyndir hvað hasar varðar. Gras, haglabyssur og male bonding er auðvitað ekkert annað en killer blanda. Geggjuð mynd.

3. The Bank Job

Nýjasta myndin frá Roger Donaldson sem gerði m.a. Cocktail, Species og Dante’s Peak er besta breska útflutningsvara ársins. Þetta er gæðamynd sem stígur varla feilspor frá upphafi til enda. Fléttan er virkilega góð enda er myndin byggð á sannsögulegum atburðum og það sem er satt er oft magnaðara en skáldskapurinn. Myndin er ansi vel leikin og nær tíðarandanum mjög vel en sagan gerist árið 1971. Jason Statham fer fyrir frábærum hópi breskra leikara og er alveg jafn svalur og venjulega þrátt fyrir að um sé að ræða talsvert raunverulegri kringumstæður en hann þarf oftast að glíma við í myndum sínum. Frábært handrit frá gölmlu mönnunum Dick Clement og Ian La Frenais sem eru báðir komnir á áttræðisaldur en kunna þetta enn. Virkilega góð nálgun á söguna um stærsta bankarán í sögu Bretlands. Klassamynd sem ég hika ekki við að mæla með.

2. No Country For Old Men

Önnur mynd Cohen-bræðra á þessum lista. Þessi er sannkölluð perla enda vann hún 4 Óskarsverðlaun á síðustu hátíð og þar á meðal sem besta myndin. Josh Brolin er helvíti góður sem logsjóðarinn Llewelyn Moss og Tommy Lee Jones stendur fyrir sínu í hlutverki fógetans Ed Tom Bell. Það er þó snillingurinn Javier Bardem sem stendur upp úr og er ógleymanlegur í hlutverki hins hins tilfinningalausa morðingja Anton Chigurh. Þar er á ferð virkilega góður leikari. Hver sem getur púllað þessa hárgreiðlsu og samt verið svalur á mikinn heiður skilið. Cohen-bræður eru auðvitað ótrúlegir og þetta er ein af þeirra bestu myndum. Hnökralaust snilldarverk. Þetta er ein af þessum myndum sem verðskuldar virkilega öll verðlaunin.

1. The Dark Knight

Þessi mynd var stærsti kvikmyndaviðburður ársins (að vísu ef frá er talinn Mamma Mia! en við tölum ekki um það hér). Hún toppaði algerlega Quantum of Solace sem stærsta framhaldsmyndin og var einnig besta hasarmyndin. Hún var klárlega besta ofurhetjumyndin á árinu og má með sanni segja að hún sé með þeim allra bestu ef ekki sú besta í sögunni en það fer allt eftir smekk. Spennandi plott með flottum flækjum og frábærir leikarar sem þó falla allir í skuggann af Heath Ledger sem er magnaður sem Jókerinn. Ég fílaði Jack Nicholson í botn en mér finnst Ledger ná að skapa mun dýpri og meira twisted persónu úr einum skemmtilegasta illvirkja allra tíma. Það besta við þessa mynd er þó lúkkið og andrúmsloftið sem Nolan og félögum tekst að skapa. Útlit myndarinnar er skemmtilegt tribjút til Heat (myndin byrjar meira að segja á bankaráni) og það er líka flott hvað útlitið er allt öðruvísi en í Batman Begins. Chicago tekur sig mjög vel út sem Gotham. Frábær mynd sem stendur upp úr á annars frábæru kvikmyndaári.

2 comments:

Tryggvi Steinn said...

PS: Netið mitt er búið að liggja niðri síðustu 3 daga svo ég vona að ég fái ekki mörg mínusstig fyrir að skila þessu svona seint.

Siggi Palli said...

Fín færsla. 10-2=8 stig.