Wednesday, September 17, 2008

Maraþonmynd

Þegar við komum fyrst saman til að taka upp þessa blessuðu mynd vorum við öll frekar hugmyndasnauð fyrst um sinn og það þurfti því heilmikið brainstorm áður en við gátum hafist handa. Nokkrar misgáfulegar og misframkvæmanlegar hugmyndir litu dagsins ljós áður en við sættumst loksins á eina. Tökurnar fóru fram heima hjá Breka. Það kom ágætlega út enda held ég að það hafi verið myndrænasta íbúðin sem var í boði. Hópurinn vann nokkuð vel saman og við beittum frekar fast mótaðri verkaskiptingu sem gerði það að verkum að allt gekk að mestu leyti snuðrulaust fyrir sig. Breki sá um að taka upp, Anna var á bómunni og ég og Íris gerðum okkar besta til að líta ekki út eins og hálfvitar. Við plönuðum fátt fyrirfram heldur sömdum atburðarásina jafn óðum. Það sem við vildum ná fram var að koma með einhverja áhugaverða fléttu, reyna að snúa aðstæðum sem virðast fullkomlega eðlilegar við fyrstu sýn upp í eitthvað brenglað. Ég veit ekki hversu vel okkur tókst til. Ég var ánægður með sumt en það var margt sem hefði getað verið betra. Endirinn var sennilega helst til snubbóttur og það voru nokkur skot sem heppnuðust ekki alveg nógu vel. T.d. skotið þar sem brauðið skýst upp úr ristinni en það varð eiginlega að engu af einhverjum ástæðum. Á heildina litið var ég þó nokkuð sáttur með útkomuna og tel mig hafa lært eitt og annað á þessu ferli. Til þess er leikurinn gerður, ekki satt?

1 comment: