Sunday, September 28, 2008

Sveitabrúðkaup

Ég hafði ekkert gífurlega miklar væntingar þegar ég fór að sjá Sveitabrúðkaup. Mér fannst hún ekki hljóma neitt sérstaklega spennandi og þar að auki hafði ég heyrt að hún væri ekkert spes. En þessi mynd kom mér skemmtilega á óvart. Hún státar kannski ekki af bitastæðasta söguþræði sem sést hefur á filmu en það kemur ekki að sök því þessi mynd snýst miklu meira um persónurnar en atburðarásina. Henni er haldið uppi af frábærri frammistöðu leikhópsins sem stóð sig svo vel að ég get í raun ekki í fljótu bragði sagt að neinn karakter hafi verið áhugaverðari eða betur túlkaður en annar. Uppáhalds persónan mín var samt klárlega amman.
Það sem er samt merkilegast við þessa mynd er samt auðvitað hvernig hún er unnin. Margar senur teknar upp í einu án þess að leikararnir viti hvað er að gerast í öðrum senum en þeirra. Öllum persónum gefið leyndarmál sem engin annar mátti vita. Það var til dæmis algjör snilld að enginn vissi að sálfræðingurinn í hópnum var ekki sálfræðingur heldur sagnfræðingur og eftir að maður vissi það þá sá maður hversu mikinn stjörnuleik Víkingur sýnir í þessari mynd. Atburðarásin spunnin á staðnum. T.d. þegar Ólafur Darri hendir Gísla Erni í ána í slagsmálunum. Allt tekið upp á þrjár myndavélar sem áttu einfaldlega að fanga allt sem var að gerast. Það hefur örugglega verið vesen að passa að tökumennirnir yrðu ekki fyrir hver öðrum. Eitt af því sem mér fannst merkilegast var að öll myndin var tekin upp á sjö dögum. Ég vissi ekki að það væri hægt að taka upp kvikmynd í fullri lengd á svo skömmum tíma.
Heimsókn Valdísar var mjög upplýsandi og skemmtileg, enda ekki á hverjum degi sem maður nemur við fótskör einhvers sem hefur unnið BAFTA-verðlaunin og unnið með mönnum á borð við Gus Van Sant og Lars von Trier. Það var gaman að heyra hana tala um samskipti klippara og leikstjóra og það hvernig það er að vinna tveggja tíma mynd úr 600 klukkustundum af efni. Mér fannst ég læra meira í þessum tíma en í tíu íslensku-tímum.
Sveitabrúðkaup er mjög fín mynd en ekkert meira en það. Hún er vel leikin og skemmtilega gerð en er samt ekkert meistaraverk. Þetta er ein af þessum myndum sem er gaman að horfa á en skilja kannski ekki mikið eftir sig.

1 comment: