Þegar ég fór að heiman þetta kvöld hafði ég í hyggju að sjá myndina Heavy Metal in Baghdad en lenti í því að sá sem var á undan mér í röðinni við miðasöluna keypti síðasta miðann. Ég stóð því eins og illa gerður hlutur fyrir framan stelpuna á bakvið glerið og endaði á því að kaupa miða á fyrsta titilinn sem ég sá. Það var myndin I’ve Loved You So Long eða Il y a longtemps que je t’aime. Í stað þess að fara með félagsskap á heimildamynd um írakska þungarokkara var ég lentur einn á hádramatísku frönsku fjölskyldudrama. Það tók mig dálitla stund að aðlagast breyttum aðstæðum en þegar upp var staðið sá ég ekkert eftir skiptunum.
I’ve Loved You So Long er mynd eftir Philippe Claudel sem er betur þekktur sem rithöfundur og handritshöfundur og er þetta frumraun hans sem leikstjóri. Aðalhlutverkið leikur enska leikkonan Kristen Scott Thomas sem hefur leikið í myndum á borð við: Four Weddings and a Funeral, Mission: Impossible og Gosford Park. Persónan hennar er hálf ensk og hálf frönsk en hún talar reiprennandi frönsku og hefur oftar en einu sinni talað fyrir sjálfa sig í frönskum talsetningum á myndum sínum. Með önnur helstu hlutverk fara Elsa Zylberstein, Serge Hasanavicius og Laurent Grévill svo einhverjir séu nefndir.
Myndin fjallar um Juliette sem hefur verið látin laus úr fangelsi eftir að hafa setið inni í fimmtán ár. Henni er óvænt tekið opnum örmum af yngri systur sinni, Léu, sem tekur hana inn á heimili sitt og undir sinn verndarvæng. Fyrst um sinn er Juliette lokuð og kuldaleg gagnvart heiminum í kringum sig en með hjálp systur sinnar og fjölskyldu hennar og vina opnar hún sig og kemur hægt og bítandi út úr skelinni.
Áhorfandinn fær ekki strax að vita hvers vegna Juliette sat inni en brátt kemur í ljós að hún var dæmd fyrir að myrða ungan son sinn. Rauði þráðurinn í myndinni er því spurningin: af hverju? Hvernig gat þessi kona sem er svo góð við systurdætur sínar myrt barn? Það veldur síðan eðlilega ýmiss konar erfiðleikum í samskiptum fjölskyldumeðlimanna.
Ég var nokkuð hrifinn af þessari mynd. Hún er vel skrifuð, geysilega vel leikin og heldur manni föngnum frá upphafi til enda. Þetta er vissulega dramatísk saga en verður þó aldrei að einhverju grátbólgnu poppkornsdrama. Til þess er handritið of gott. Atburðir sögunnar eru meira að segja oft grátbroslegir og koma þá til ýmsar áhugaverðar aukapersónur eins og mállaus tengdafaðir Léu og hinn undarlegi skilorðsfulltrúi sem Juliette vingast við.
Ég er kannski ekki týpan sem fíla franskt drama í ræmur svona dags daglega en ég var þó, þegar upp var staðið, bara ansi sáttur með að hafa álpast inn á þessa mynd. Það er alltaf gaman að horfa á kvikmynd sem maður veit ekkert um en kemur manni síðan á óvart. I’ve Loved You So Long er fínast mynd og það er óhætt að mæla með henni fyrir þann sem hefur ekkert á móti því að fá kalda gusu af mannlegum tilfinningum í andlitið til að hrista af sér kreppuslenið.
Monday, October 27, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Fín færsla. 7 stig.
Post a Comment