Thursday, December 4, 2008

Zack and Miri Make a Porno

Þegar ég ákvað að fara í bíó um daginn til að dreyfa huganum og reyna að gleyma því að ég ætti fyrir höndum daga sem færu meira og minna í að lesa Catúllus og Númarímur (úff), þá datt mér helst í hug að sjá eitthvað fyndið. Eitthvað ógeðslega fyndið. Það útilokaði strax W. og Apaloosa. Oliver Stone er ekki samheiti yfir afþreyingu í minni bók og vestri í leikstjórn Ed Harris með hið ofursvala en ekkert svo hressa tagline: Feelings get you killed......nei ég var bara ekki alveg í stuði. Valið stóða í raun á milli How to Lose Friends and Alienate People og Zack and Miri Make a Porno. Sú fyrrnefnda virtist hinsvegar aðeins vera sýnd í einhverjum kústaskáp bakatil í Álfabakka og á Selfossi svo ég endaði á þeirri síðarnefndu og sá bara ekkert eftir því.
Zack and Miri Make a Porno var frumsýnd þann 28. nóvember síðastliðinn. Leikstjóri er Kevin Smith og hann semur einnig handritið. Með helstu hlutverk fara Seth Rogen, Elizabeth Banks, Jason Mewes og Craig Robinson svo einhverjir séu nefndir.
Sagan segir frá Zack (Rogen) og Miri (Banks) sem eru æskuvinir og meðleigjendur. Þau kunna ekki að fara með peninga og glíma bæði við krónísk blankheit. Það endar með því að þau geta ekki borgað reikningana lengur og það er skrúfað fyrir vatn og rafmagn hjá þeim. Þar sem þau hýrast í kaldri og klakafullri íbúðinni fá þau hugmynd sem á eftir að breyta lífi þeirra. Þau ákveða að leysa fjárhagsvandan með því að taka upp og dreyfa sinni eigin klámmynd. Þau ráða fólk sér til aðstoðar og byrja að taka upp. Það kemur þó á daginn þegar á að fara að skjóta senurnar þeirra á milli að þau bera aðrar og meiri tilfinningar til hvors annars en þau höfðu áður áttað sig á.
Þessi mynd er drullufyndin. Hún er full af ótrúlega góðu stöffi, stóru sem smáu. Sérstaklega eru það þó frábærir lekarar sem gera þessa mynd góða. Til dæmis er Craig Robinson sem leikur vinnufélaga Zacks sem gerist framleiðandi myndarinnar algjör meistari. Klárlega einn fyndnasti maður sem ég hef séð lengi. Hann var líka magnaður í Pineapple Express. Brandon Routh sem hefur lítið sést síðan hann vann leiksigur sem Súperman í hinni ótrúlegu Superman Returns (2006), kemur skemmtilega á óvart með nærveru sinni og Justin Long, sem lék til dæmis í Die Hard 4, fer á kostum sem ástmaður hans. Gerry Bednob er góður í sínu klassíska gamla-Indverja hlutverki en hann er nokkurn veginn sami karakterinn og í 40 Year Old Virgin. Það var líka sérstaklega gaman að sjá Jason Mewes (betur þekktur sem Jay úr Jay and Silent Bob) aftur. Ég ætlaði heldur ekki að þekkja hann. Gerði það í rauninni ekki fyrr en myndin var að verða búin. Seth Rogen er náttúrúlega ekkert annað en snillingur og er virkilega góður í þessari mynd. Elizabeth Banks var líka góð og mér finnst reyndar geðveikt fyndið að nánast á sama tíma og þessi mynd kemur út þar sem hún leikur þessa undarlegu konu sem ætlar að leika í klámmynd til að bjarga sér frá gjaldþroti, kemur út W. eftir Oliver Stone þar sem hún leikur enga aðra en forsetafrá Bandaríkjanna, Lauru Bush. Ég veit, fyndið.
Þetta var bara fín mynd. Mér var samt einhvern veginn alveg sama um söguþráðinn því hann er frekar þunnur og snýst upp í frekar slappt rómantískt-gamanmyndadæmi þegar á líður, en þetta er geðveikt fyndin mynd. Vel leikin, vel skrifuð og að mörgu leyti mjög frumleg. Þetta er að mínu mati það besta sem Kevin Smith hefur sent frá sér í langan, langan tíma (ég er enn að reyna að gleyma Jersey Girl) og það er alveg þess virði að eyða kvöldstund í að horfa á þetta. Jafnvel kvöldstund og 1000 kalli. Gott stöff. Virkilega gott stöff.

EITTHVAÐ TIL AÐ GLEÐJA AUGAÐ.

Tuesday, November 25, 2008

Fight Club

Fight Club er ein af þessum myndum sem ég hef vitað af og vitað að væri góð í mörg ár en hafði aldrei lent í því að sjá hana. Hún er ein af þessum myndum sem ég er búinn að hafa lengi á bak við eyrað sem góðan kost næst þegar ég er staddur á myndbandaleigu. Nýlega sá ég hana svo uppi á hillu í Laugarásvideo og hugsaði með mér: Nú læt ég verða af því. Það má því segja að ég hafi haft frekar talsverðar væntingar til þessarar myndar áður en ég sá hana eftir að hafa fengið að heyra hversu klikkuð hún sé síðustu níu árin eða svo en þrátt fyrir það varð ég alls ekki fyrir vonbrigðum.
Fight Club er mynd frá árinu 1999. Leikstjóri er David Fincher og handritið er eftir Jim Uhls, byggt á bók eftir Chuck Palahniuk. Með aðalhlutverkin fara þeir Edward Norton og Brad Pitt en aðrir leikarar eru t.d. Helena Bonham Carter, Meat Loaf, Zach Grenier og Jared Leto.
Myndin fjallar um sögumanninn (Norton). Það kemur ekki fram í myndinn hvað hann heitir ef maður horfir á aukaefnið er talað um hann sem Jack. Hann vinnur við að meta hvort að öryggisgallar á bílum séu nógu alvarlegir til að afturkalla vöruna. Hann þjáist af svefnleysi og tekur upp á því að mæta á alls kyns stuðningsfundi. T.d. AA-fundi, fundi fyrir krabbameinssjúka og fundi fyrir menn sem hafa misst eistun. Á þessum fundum fær hann útrás fyrir bældar tilfinningar sínar og getur grátið hástöfum án þess að nokkur kyppi sé upp við það. Þessir tilfinningaríku fundir gera honum kleift að sofa á nóttunni. Á einum fundinum kynnist hann Mörlu (Bonham Carter) sem hefur sama áhugamál. Hann getur ekki notið sín á fundunum þegar einhver annar er að þykjast eiga við vandamál að stríða og því skipta þau á milli sín fundunum.
Þá kemur Tyler Durden (Pitt) til sögunnar. Jack hittir hann í flugvél og fær nafnspjaldið hans. Þegar Jack kemur heim hefur íbúðin hans sprungið vegna gasleka og hann hringir í Tyler og fær að gista hjá honum. Tyler kynnir hann fyrir slagsmálum og þeirri nautn sem fellst í því að fá útrás fyrir bælda árásarhneigð. Saman stofna þeir Fight Club sem er félag fyrir menn sem vilja slást bara til þess að slást.
Fyrst um sinn leikur allt í lyndi og Jack nýtur lífsins í þessum nýja félagsskap en brátt fer að síga á ógæfuhliðina. Fyrst er Tyler skyndilega kominn í samband við Mörlu og halda þau vöku fyrir Jack með ýktum samfarastunum en Tyler bannar Jack að tala um hann við hana. Stuttu síðar fer Tyler að koma með meðlimi slagsmálahópsins heim og lætur þá ganga í gegnum alls kyns verkefni og próf. Hægt og bítandi býr hann sér til her skæruliða til að “þjóna hinum æðri tilgangi”. En hver er sá tilgangur og hver er Tyler Durden í raun og veru? Hver er þessi ofursvali maður sem er allt sem Jack vildi óska að hann væri en er ekki. Ég vildi að ég gæti sagt meira en ég vil ekki eiga á hættu að spilla plottinu fyrir þeim sem ekki hafa séð þessa stórgóðu mynd. Þ.e.a.s. ef ég var ekki sá eini sem átti eftir að sjá hana...
Ég var virkilega hrifin af þessar i mynd. Hún er einstaklega frumleg, handritið er frábært (ég elska myndir sem hægt er að kvóta í), leikararnir standa sig með stakri prýði og svo er myndin líka tussuflott. Allt últit myndarinnar skapar mjög flotta stemmingu og klippingin er mjög kúl. Svo er tónlistin líka geðveik. Fight Club er alvöru mynd sem ég hika ekki við að mæla með. Sérstaklega fyrir þá sem hafa gaman af frumlegu plotti og grófu ofbeldi, eins og ég.
Til að gefa smá nasasjón af snilldinni læt ég fylgja með:
THE 8 RULES OF FIGHT CLUB.

Wednesday, October 29, 2008

Reykjavík-Rotterdam

Reykjavík-Rotterdam er nýjasta myndin frá Óskari Jónassyni. Hann leikstýrir og skrifar handritið ásamt Arnaldi Indriðasyni. Með helstu hlutverk fara Baltasar Kormákur, Ingvar E. Sigurðsson og Lilja Nótt Þórarinsdóttir svo einhverjir séu nefndir.
Myndin segir frá Kristófer sem er fyrrverandi smyglari sem hefur snúið við blaðinu og vinnur nú fyrir sér og fjölskyldu sinni sem næturvörður. Þau eiga þó varla fyrir salti í grautinn og þegar Skarphéðinn, gamall félagi Kristófers, býður honum að fara einn túr og smygla spíra frá Rotterdam til Reykjavíkur getur Kristófer varla sagt nei. Við fylgjumst með ferð hans til Hollands og til baka sem er vægast sagt viðburðarík og á meðan sjáum við hvernig Skarphéðinn vinnur að því að koma upp um Kristófer á meðan hann reynir að næla í konuna hans.
Þessi mynd kom mér skemmtilega á óvart og ég held að þetta sé ein besta íslenska mynd sem ég hef séð. Að minnsta kosti besta íslenska spennumyndin. Plottið er frábært, handritið er raunverulegt og sannfærandi og myndin er mjög vel leikin. Svo vel leikin að það er ómögulegt að finna einhvern sem stendur upp úr. Allir skila sínum hlutverkum mjög vel.
Það er spes tilfinning að horfa á spennumynd í bíó og sjá fólk aka um sömu göturnar og maður sjálfur gerði fyrr um daginn. Þetta var eitthvað sem ég fann meira fyrir í þessari mynd en flestum öðrum íslenskum myndum. Þessi sterka nálægð við raunveruleikan sem gerir viðfangsefnið ennþá áhugaverðara. Það er eitt það besta við þessa mynd. Hún er raunveruleg. Þetta er eitthvað sem gæti verið að gerast akkurat núna í næstu götu. Spennandi.
Það var gaman að sjá Baltasar Kormák fyrir framan myndavélina á nýjan leik enda frábær leikari þar á ferð. Uppáhalds persónan mín í þessari mynd var þó skítlegi handrukkarinn sem Jóhannes Haukur Jóhannesson leikur af stakri snilld. Það var líka fyndi að sjá Ólaf sem leikstýrði Herranótt í fyrra í hlutverki gaursins á vídeóleigunni.
Reykjavík-Rotterdam er á heildina litið bara helvíti góð mynd. Hversu margar íslenskar myndir bjóða upp á skotbardaga við sérsveitarmenn og stolið Pollock málverk notað sem yfirbreiðslu? Ekki margar, en þessi gerir það og svo miklu meira.
Það var gaman á fá Óskar Jónasson í heimsókn. Hann er að mínu mati einn af okkar allra bestu á þessu sviði og hefur verið það síðan meistaraverkið Sódóma Reykjavík kom út árið 1992. Það var sérstaklega áhugavert að heyra hann tala um hvernig það var að skjóta í Rotterdam og hvernig allt er miklu beinskiptara þar. Það er líka gaman að vita hversu ótrúlega mikið ferli það er að gera mynd af þessari stærðargráðu. Handritið var skrifað 2001 en myndin kemur ekki út fyrr en 2008. Ótrúlegt hvað það að finna fjármagn fyrir þessum herlegheitum er stór partur af þessu. Hann talaði líka um hvernig það er að vinna í sjónvarpi og hvernig allt gerist miklu hraðra þar. Ég tel mig hafa lært slatta á þessari heimsókn og get því með góðri samvisku sagt að ég sé bara ansi sáttur. Góð mynd, góð heimsókn, þetta er allt saman voða gott.

Tuesday, October 28, 2008

RIFF: Long Weekend

Long Weekend er áströlsk hryllingsmynd frá árinu 1978. Leikstjóri er Colin Eggleston og handritið er eftir Everett De Roche. Með aðalhlutverkin fara John Hargreaves og Briony Behets.
Myndin er eitt helsta dæmið um Ozploitation stefnuna sem kom fram á sjónarsviðið í Ástralíu árið 1971 þegar farið var að framleiða myndir með “R” stimplinum. Ozploitation var stærst á áttunda og níunda áratugnum og einkenndist af “low budget” myndum sem sýndu meira ofbeldi og meiri nekt en áður hafði þekkst. Önnur dæmi um þessa stefnu í kvikmyndagerð eru t.d. Mad Max-myndirnar, Razorback og Crocodile Dundee. Á undanförnum árum hefur ozploitation fengið nokkurs konar uppreisn æru með myndum eins og Undead, Wolf Creek og Rogue. Einnig er von á endurgerð á Long Weekend og er handritið skrifað af De Roche en Eggleston lést árið 2002.
Long Weekend segir frá hjónunum Peter og Marciu sem eru ekki beinlínis náin og í raun á barmi skilnaðar. Þau fara saman í frí á afskekktri strönd og brátt fara undarlegir atburðir að gerast. Hjónin fara illa með náttúruna alla ferðina og á endanum snýst náttúran gegn þeim. Alls kyns dýr, allt frá pokarottum til arnar, ráðast á þau og svo virðist sem skógurinn sé hreinlega að reyna að gera út af við þau. Þeirra helsti kvalari er þó dýr sem virðist vera að ráðast á Peter í sjónum. Þau halda að það sé hákarl og skjóta það. Skrýmslið reynist vera sækýr. Síðan fer hræið að færast nær þegar þau eru ekki að fylgjast með og á endanum missa þau bæði stjórn á sér og allt fer til fjandans.
Eftir því sem sagan líður fær áhorfandinn líka að komast að ýmsu um kalið samband hjónanna, eins til dæmis að Marcia hafi farið í fósureyðingu, en það hefur ekki sérlega mikið gildi fyrir söguna.
Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af þessari mynd. Það er lagt upp með áhugaverða pælingu en útfærslan heppnast ekkert allt of vel. Aðalpersónurnar eru leiðindafólk sem maður hefur enga samúð með og pokarottur eru bara ekkert skerí, hvað þá sækýr. Söguþráðurinn er langdreginn og síðustu tuttugu mínúturnar eru meira og minna án tals. Ég veit ekki með aðra sem sátu í bíósalnum þetta kvöld en ég eyddi stórum parti af myndinni hreinlega í að bíð eftir að aðalpersónurnar dræpust.
Mín niðurstaða er að þessi mynd er ekkert sérstaklega ógnvekjandi, ekkert sérstaklega skemmtileg og ekkert sérstaklega áhugaverð eða m.ö.o. ekkert sérstök. Má ég þá frekar biðja um Mad Max.

Monday, October 27, 2008

RIFF: I've Loved You So Long

Þegar ég fór að heiman þetta kvöld hafði ég í hyggju að sjá myndina Heavy Metal in Baghdad en lenti í því að sá sem var á undan mér í röðinni við miðasöluna keypti síðasta miðann. Ég stóð því eins og illa gerður hlutur fyrir framan stelpuna á bakvið glerið og endaði á því að kaupa miða á fyrsta titilinn sem ég sá. Það var myndin I’ve Loved You So Long eða Il y a longtemps que je t’aime. Í stað þess að fara með félagsskap á heimildamynd um írakska þungarokkara var ég lentur einn á hádramatísku frönsku fjölskyldudrama. Það tók mig dálitla stund að aðlagast breyttum aðstæðum en þegar upp var staðið sá ég ekkert eftir skiptunum.
I’ve Loved You So Long er mynd eftir Philippe Claudel sem er betur þekktur sem rithöfundur og handritshöfundur og er þetta frumraun hans sem leikstjóri. Aðalhlutverkið leikur enska leikkonan Kristen Scott Thomas sem hefur leikið í myndum á borð við: Four Weddings and a Funeral, Mission: Impossible og Gosford Park. Persónan hennar er hálf ensk og hálf frönsk en hún talar reiprennandi frönsku og hefur oftar en einu sinni talað fyrir sjálfa sig í frönskum talsetningum á myndum sínum. Með önnur helstu hlutverk fara Elsa Zylberstein, Serge Hasanavicius og Laurent Grévill svo einhverjir séu nefndir.
Myndin fjallar um Juliette sem hefur verið látin laus úr fangelsi eftir að hafa setið inni í fimmtán ár. Henni er óvænt tekið opnum örmum af yngri systur sinni, Léu, sem tekur hana inn á heimili sitt og undir sinn verndarvæng. Fyrst um sinn er Juliette lokuð og kuldaleg gagnvart heiminum í kringum sig en með hjálp systur sinnar og fjölskyldu hennar og vina opnar hún sig og kemur hægt og bítandi út úr skelinni.
Áhorfandinn fær ekki strax að vita hvers vegna Juliette sat inni en brátt kemur í ljós að hún var dæmd fyrir að myrða ungan son sinn. Rauði þráðurinn í myndinni er því spurningin: af hverju? Hvernig gat þessi kona sem er svo góð við systurdætur sínar myrt barn? Það veldur síðan eðlilega ýmiss konar erfiðleikum í samskiptum fjölskyldumeðlimanna.
Ég var nokkuð hrifinn af þessari mynd. Hún er vel skrifuð, geysilega vel leikin og heldur manni föngnum frá upphafi til enda. Þetta er vissulega dramatísk saga en verður þó aldrei að einhverju grátbólgnu poppkornsdrama. Til þess er handritið of gott. Atburðir sögunnar eru meira að segja oft grátbroslegir og koma þá til ýmsar áhugaverðar aukapersónur eins og mállaus tengdafaðir Léu og hinn undarlegi skilorðsfulltrúi sem Juliette vingast við.
Ég er kannski ekki týpan sem fíla franskt drama í ræmur svona dags daglega en ég var þó, þegar upp var staðið, bara ansi sáttur með að hafa álpast inn á þessa mynd. Það er alltaf gaman að horfa á kvikmynd sem maður veit ekkert um en kemur manni síðan á óvart. I’ve Loved You So Long er fínast mynd og það er óhætt að mæla með henni fyrir þann sem hefur ekkert á móti því að fá kalda gusu af mannlegum tilfinningum í andlitið til að hrista af sér kreppuslenið.

Tuesday, September 30, 2008

TOPP 10

Nú er loksins komið að því. Hinn margumtalaði topp 10-listi lítur dagsins ljós. Eftir að hafa setið yfir þessu dálitla stund rann upp fyrir mér að ég gæti ekki með nokkru móti búið til fullkominn lista þar sem það eru allt of margar myndir sem ég elska. Ég ákvað því að búa til einfaldan lista yfir þær myndir sem mér datt í hug og það er listinn sem hér birtist. Hann er kannski ekki alveg fullkominn en hann er nokkuð nálægt því.

10.
Into the Wild
(2007)








Leikstjóri: Sean Penn
Aðalleikarar: Emile Hirsch, William Hurt, Hal Holbrook, Vince Vaughn o.fl.
Ég sá þessa mynd nýlega og ég get með sanni sagt að fáar myndir haf komið mér jafn mikið á óvart. Þetta er einstaklega áhrifarík mynd, vel leikin, frábær myndataka og geðveik tónlist. Ein af bestu myndum síðast árs.

Sýnishorn!

9.
28 days later
(2002)








Leikstjóri: Danny Boyle
Aðalleikarar: Cillian Murphy, Naomie Harris, Christopher Eccleston.
Ég varð að setja eina zombie-mynd á listann. Þetta er flott mynd. Ein af þessum myndum sem ná að gera þetta fráleita zombie konsept trúanlegt. Ég er ekki mikill hryllingsmyndamaður en þessi er awesome.

Sýnishorn!

8.
Resevoir Dogs
(1992)








Leikstjóri: Quentin Tarantino
Aðalleikarar: Harvey Keitel, Tim Roth, Michael Madsen, Steve Buscemi o.fl.
Ég er mikill Tarantino maður og þessi er því ómissandi. Frábær mynd. Það eru fáar sem komast með tærnar þar sem þessi hefur hælana hvað varðar vel skrifuð samtöl. Plottið er líka mjög gott og þetta stjörnulið leikara skemmir ekki fyrir.

Sýnishorn!

7.
The Boondock Saints
(1999)








Leikstjóri: Troy Duffy
Aðalleikarar: Sean Patrick Flanery, Norman Reedus, Willem Dafoe.
Kúl mynd. Írskir harðjaxlar í hæsta gæðaflokki. Þetta er ein mesta strákamynd sem ég veit um enda er ekki eitt einasta alvöru kvenhlutverk í myndinni. Dálítið ýkt á köflum en það er bara betra.

Sýnishorn!

6.
Die Hard
(1988)







Leikstjóri: John McTiernan
Aðalleikarar: Bruce Willis, Bonnie Bedelia, Alan Rickman.
Besta hasarmynd allra tíma. Ég get horft endalaust á þessa mynd án þess að verða leiður á henni. Bruce Willis er ógleymanlegur sem hinn ofurmannlegi John McClane og Alan Rickman stendur fyrir sínu sem gamli góði vondi kallinn. Snilldarmynd.

Sýnishorn!

5.
Lock, Stock and Two Smoking Barrels
(1998)








Leikstjóri: Guy Ritchie
Aðalleikarar: Jason Flemyng, Dexter Fletcher, Jason Statham, Vinnie Jones o.fl.
Bresk smákrimmamynd af bestu gerð. Ofbeldi og töffaraskapur í bland við frábæran húmor og massíft plott. Svo ekki sé minnst á Vinnie Jones sem er auðvitað ekkert annað en meistari.

Sýnishorn!

4.
Fear & Loathing in Las Vegas
(1998)








Leikstjóri: Terry Gilliam
Aðalleikarar: Johnny Depp, Benicio Del Toro, Tobey Maguire, Christina Ricci o.fl.
Monty Python kempan Gilliam fer með okkur á sveitt sýrutripp í eyðimörkinni. Algjör snilld. Súrrealísk rússíbanaferð. Þeir Depp og Del Toro eru mjög sannfærandi og vímuatriðin eru listilega vel útfærð. Áhugaverð og skemmtileg mynd.

Sýnishorn!

3.
Kill Bill I & II
(2003-2004)








Leikstjóri: Quentin Tarantino
Aðalleikarar: Uma Thurman, Lucy Liu, David Carradine, Daryl Hannah o.fl.
Þessi magnaði tvíleikur er auðvitað ekkert annað en konfekt fyrir augu og eyru. Allt lúkkið á myndunum er einstaklega töff og tónlistin er tær snilld. Söguþraðurinn er líka mjög góður. Ég fíla svona ýkt hefndarplott.

Sýnishorn!

2.
Pulp Fiction
(1994)








Leikstjóri: Quentin Tarantino
Aðalleikarar: John Travolta, Samuel L. Jackson, Bruce Willis, Uma Thurman o.fl.
Ekkert annað en meistaraverk. Að mínu mati eitt besta handrit allra tíma, frábær leikur, einstaklega vel skrifuð samtöl og góð tónlist. Þessi mynd hefur allt til að bera sem minn smekkur krefst. Epík.

Sýnishorn!

1.
Sin City
(2005)
Leikstjórar: Frank Miller & Robert Rodriguez
Aðalleikarar: Bruce Willis, Clive Owen, Mickey Rourke, Jessica Alba o.fl.
Þegar ég fer í bíó vil ég ekki sjá heiminn eins og hann er. Ég fer í bíó til að upplifa eitthvað nýtt. Ég vil sjá annan heim en minn eigin og það er einmitt það sem þessi mynd bíður upp á. Það er bara eitt orð sem lýsir þessari mynd vel. Kúl. Virkilega kúl. Þeir sem segja að þessi mynd sé ýkt eða innihaldslaus geta átt sig. Sin City er ofursvöl og ég fíla hana í ræmur.

Sýnishorn!

Myndir sem komust ekki á listann eða ég gleymdi meðan ég var að skrifa hann:
Oldboy, Fargo, Godfather, Scarface, Lord of the Rings, Death Proof, Dawn of the Dead, Hot Fuzz, The Dark Knight, Goodfellas, Desperado, Natural Born Killers, Snatch, Children of Men, Back to the Future, Lady Vengeance o.fl o.fl.

American Psycho

American Psycho er mynd frá árinu 2000. Leikstjóri er Mary Harron en hún skrifar einnig handritið ásamt Bret Easton Ellis en hann skrifaði bókina sem myndin er byggð á. Christian Bale fer með aðalhlutverkið en aðrir leikarar eru t.d. Chloë Sevigny, Reese Witherspoon, Willem Dafoe og Jared Leto svo einhverjir séu nefndir. Mary Harron hefur aðallega leikstýrt sjónvarpsþáttum á borð við Six Feet Under og Big Love á undanförnum árum og ég held að það sé óhætt að segja að American Psycho sé hennar frægasta mynd. Aðrar myndir eftir hana eru t.d. I Shot Andy Warhol og The Notorious Bettie Page.
American Psycho segir frá Patrick Bateman sem er 26 ára aðstoðarframkvæmdastjóri á Wall Street. Á daginn sinnir hann vinnu sinni, stundar líkamsrækt og borðar og skemmtir sér með öðru ungu, ríku fólki. En á nóttunni myrðir hann fólk. Bateman er sálarlaust skrímsli sem hatar heiminn í kringum sig og er rekinn áfram af efnishyggjunni einni saman. Hann verður sífellt geðveikari eftir því sem líður á myndina þar til hann hreinlega missir tökin á veruleikanum.
Þessari mynd er haldið uppi af aðalpersónunni sem Cristian Bale leikur af stakri snilld. Aðrar persónur eru eins og hluti af leikmyndinni þar sem hin eiginlega atburðarás er það sem á sér stað í huga Batemans. Ég hafði mjög gaman af þessari mynd. Hún var að mínu mati góð útfærsla á góðu handriti. Ég mæli eindregið með þessari mynd en þó ekki fyrir viðkvæma enda fékk hún R-stimpilinn í Bandaríkjunum fyrir gróft ofbeldi, kynlíf, eiturlyfjanotkun og málfar. Geri aðrir betur.
Til að gefa tóninn:

Sunday, September 28, 2008

Sveitabrúðkaup

Ég hafði ekkert gífurlega miklar væntingar þegar ég fór að sjá Sveitabrúðkaup. Mér fannst hún ekki hljóma neitt sérstaklega spennandi og þar að auki hafði ég heyrt að hún væri ekkert spes. En þessi mynd kom mér skemmtilega á óvart. Hún státar kannski ekki af bitastæðasta söguþræði sem sést hefur á filmu en það kemur ekki að sök því þessi mynd snýst miklu meira um persónurnar en atburðarásina. Henni er haldið uppi af frábærri frammistöðu leikhópsins sem stóð sig svo vel að ég get í raun ekki í fljótu bragði sagt að neinn karakter hafi verið áhugaverðari eða betur túlkaður en annar. Uppáhalds persónan mín var samt klárlega amman.
Það sem er samt merkilegast við þessa mynd er samt auðvitað hvernig hún er unnin. Margar senur teknar upp í einu án þess að leikararnir viti hvað er að gerast í öðrum senum en þeirra. Öllum persónum gefið leyndarmál sem engin annar mátti vita. Það var til dæmis algjör snilld að enginn vissi að sálfræðingurinn í hópnum var ekki sálfræðingur heldur sagnfræðingur og eftir að maður vissi það þá sá maður hversu mikinn stjörnuleik Víkingur sýnir í þessari mynd. Atburðarásin spunnin á staðnum. T.d. þegar Ólafur Darri hendir Gísla Erni í ána í slagsmálunum. Allt tekið upp á þrjár myndavélar sem áttu einfaldlega að fanga allt sem var að gerast. Það hefur örugglega verið vesen að passa að tökumennirnir yrðu ekki fyrir hver öðrum. Eitt af því sem mér fannst merkilegast var að öll myndin var tekin upp á sjö dögum. Ég vissi ekki að það væri hægt að taka upp kvikmynd í fullri lengd á svo skömmum tíma.
Heimsókn Valdísar var mjög upplýsandi og skemmtileg, enda ekki á hverjum degi sem maður nemur við fótskör einhvers sem hefur unnið BAFTA-verðlaunin og unnið með mönnum á borð við Gus Van Sant og Lars von Trier. Það var gaman að heyra hana tala um samskipti klippara og leikstjóra og það hvernig það er að vinna tveggja tíma mynd úr 600 klukkustundum af efni. Mér fannst ég læra meira í þessum tíma en í tíu íslensku-tímum.
Sveitabrúðkaup er mjög fín mynd en ekkert meira en það. Hún er vel leikin og skemmtilega gerð en er samt ekkert meistaraverk. Þetta er ein af þessum myndum sem er gaman að horfa á en skilja kannski ekki mikið eftir sig.

Wednesday, September 17, 2008

Maraþonmynd

Þegar við komum fyrst saman til að taka upp þessa blessuðu mynd vorum við öll frekar hugmyndasnauð fyrst um sinn og það þurfti því heilmikið brainstorm áður en við gátum hafist handa. Nokkrar misgáfulegar og misframkvæmanlegar hugmyndir litu dagsins ljós áður en við sættumst loksins á eina. Tökurnar fóru fram heima hjá Breka. Það kom ágætlega út enda held ég að það hafi verið myndrænasta íbúðin sem var í boði. Hópurinn vann nokkuð vel saman og við beittum frekar fast mótaðri verkaskiptingu sem gerði það að verkum að allt gekk að mestu leyti snuðrulaust fyrir sig. Breki sá um að taka upp, Anna var á bómunni og ég og Íris gerðum okkar besta til að líta ekki út eins og hálfvitar. Við plönuðum fátt fyrirfram heldur sömdum atburðarásina jafn óðum. Það sem við vildum ná fram var að koma með einhverja áhugaverða fléttu, reyna að snúa aðstæðum sem virðast fullkomlega eðlilegar við fyrstu sýn upp í eitthvað brenglað. Ég veit ekki hversu vel okkur tókst til. Ég var ánægður með sumt en það var margt sem hefði getað verið betra. Endirinn var sennilega helst til snubbóttur og það voru nokkur skot sem heppnuðust ekki alveg nógu vel. T.d. skotið þar sem brauðið skýst upp úr ristinni en það varð eiginlega að engu af einhverjum ástæðum. Á heildina litið var ég þó nokkuð sáttur með útkomuna og tel mig hafa lært eitt og annað á þessu ferli. Til þess er leikurinn gerður, ekki satt?

Sunday, August 31, 2008

Reykjavík shorts & docs: Cannes stuttmyndir

Til að þetta verði ekki of þurr upptalning ætla ég bara að skrifa um þær þrjár myndir sem mér þótti bestar á þessari sýningu.

Love you more
Virkilega skemmtileg mynd um pilt og stúlku sem finna hvort annað (að minnsta kosti kynferðislega) í gegnum sameiginlega hrifningu sýna af hinni stórgóðu hljómsveit Buzzcocks.
Mér fannst þessi mynd bæði vel gerð og vel leikin. Hún fangar á skemmtilegan og sannfærandi hátt þessa sveittu en fallegu stund í lífi þessa unga fólks.
Allt lúkkið á myndinni var mjög flott og greinilega mikið lagt upp úr smáatriðum sem mér finnst vera mikilvægt í mynd sem er ekki nema 15 mínútur. Svo var samtalið á milli afgreiðlsumannsins og stráksins tær snilld.

The loneliness of the short order cook
Þessi fannst mér ansi góð. Við fylgjumst með hinum einræna Shin sem er kokkur á japönskum djassbar í Los Angeles meðan hann reynir að fá dvalarleyfið sitt framlengt og ná til konunnar sem hann er ástfanginn af.
Maður öðlast mikla samúð með aðalpersónunni strax frá upphafi og sú eykst bara þegar líður á myndina. Landvistarleifið lætur bíða eftir sér og konan sem hann elskar talar ekki ensku og getur því átt mikil samskipti við hann. Myndin er nokkuð vel leikin og mjög flott í alla staði. Mér fannst mjög kúl hvernig útlitið og myndatakan ýtti undir einmanaleikatilfinninguna (langt orð). Myndin er líka fyndin á einlægan og frumlegan hátt. Í alla staði mjög fín stuttmynd.

The Next Floor
Þessi mynd er kannski ekkert sérstaklega innihaldsrík en hún bætir það upp með því að vera flottasta myndin sem ég sá þetta kvöld. Við fylgjumst með hópi af fólki sem situr prúðbúið við borð og treður í sig mat. Þetta er eins og einhverskonar átorgía. Fjöldi þjóna sér um að bera fram hvern réttinn á fætur öðrum (sem líta allir út eins og einhver innyflaviðbjóður). Það kemur að því að gólfið gefur sig og matgæðingarnir falla niður á næstu hæð þar sem rykið er dustað af þeim og svo heldur svllið áfram.
Virkilega flott mynd og bara nokkuð óhugnaleg á sinn hátt. Sérstaklega hvernig fólkið er sýnt meðan það étur. Sumir eru sýndir hratt svo að það skapast einhver ónotaleg stemming eins og fólkið sé að reyna að borða eins mikið og það getur áður en eitthvað gerist eða að það sé einfaldlega að reyna að drepa sig á áti.
Eflaust var einhver ádeila í þessari mynd en mér fannst það hreinlega vera aukaatriði. Þessi mynd er fyrst og fremst fyrir augað og er ansvíti góð sem slík.

Reykjavík shorts & docs: Heart of the Factory

Það er líklega best að lýsa Heart of the Factory með orðunum mjög áhugaverð. Þetta er heimildarmynd um starfsfólk flísaverksmiðju í Argentínu sem ganga í gengum mjög erfiða kjara- og réttindabaráttu. Myndin er fyrst og fremst áhugaverð því hún sýnir veruleika sem er manni mjög framandi. Það er í raun ótrúlegt að fylgjast með þessu fólki sem brýst undan oki miskunnarlausra stórfyrirtækja og spilltra stjórnvalda. Þetta fólk þarf bókstaflega að hætta lífi og limum til að fá að framleiða gólfflísar.
Við fylgjumst daglegu amstri í Fasinpat (Fabrica sin patrones) verksmiðjunni sem er rekin af starfsfólkinu sjálfu. Allir fá einhverju ráðið um starfsemina því það er kosið um allar ákvarðanir og allir fá jafnhá laun, allt frá ræstingafólkinu til stjórnendanna sem eru valdir af starfsfélögum sínum. Í Argentínu eru yfir 120 verksmiðjur reknar með þessum hætti.
Myndin er á heildina litið frekar góð og eins og áður sagði er umfjöllunarefnið áhugavert. Helsti ókosturinn við hana er að hún er dálítið ruglingsleg á köflum hvað varðar tímalínu. Það er stokkið á milli atburða í nútið og fortíð heldur oft og með þeim hætti að maður veit stundum ekki hvar maður er staddur í sögunni. Myndin er líka frekar langdregin. Oft á tíðum er lopinn teigður allt of mikið svo maður hefur á tilfinningunni að þessi mynd sem er rúmlega tveir klukkutímar að lengd hefði verið talsvert betri ef hún hefði verið hálftíma styttri.
Ég sé þó ekki eftir að hafa farið á þessa mynd því það er alltaf skemmtilegt og upplýsandi að sjá kvikmyndir sem sýna manni eitthvað sem maður hefur varla leitt hugann að áður, hvað þá séð.

Tuesday, August 26, 2008

enter and be welcome

Jæja...

Ný síða og eitthvað...

Þetta verður epískt...vona ég.